Ársskýrsla Origo 2018

Ársskýrsla
Origo 2018

Fjárhagur 2018

Sala á vöru og þjónustu 2018

15.717 m.kr.

[2017: 15.064 m.kr.]

EBITDA 2018

1.128 m.kr. / 7,2%

[2017: 928 m.kr. / 6,2%]

Heildarhagnaður 2018

5.420 m.kr.

[2017: 433 m.kr.]

Framlegð

4.173 m.kr. / 26,6%

[2017: 3.783 / 25,1%]

Veltufjárhlutfall 2018

1,95

[2017: 1,3]

Eiginfjárhlutfall 2018

66,1%

[2017: 41,6%]

upplysingataekni.png

ÞJÓNUSTUFYRIRTÆKI
Í UPPLÝSINGATÆKNI

Group 25.png

Vöxtur og þróun - aukið virði til hluthafa

Markaðsvirði Origo

2013

1.460 M.KR.

Markaðsvirði Origo

2018

11.740 M.KR.

Eigið fé 8.194 M.KR.
Tekjur af eigin hugbúnaði 675 M.KR.
Fjöldi hluthafa 577
Eiginfjárhlutfall 2018 66,10%
Efst í huga almennings á UT-markaði

Ávarp forstjóra og stjórnar­formanns

Finnur Oddson

Finnur Oddson,
forstjóri

Tímamót í sögu Origo

Árið 2018 var tímamótaár í sögu Origo og fyrirrennara félagsins og markar ákveðin þáttaskil í vegferð sem hófst undir lok árs 2013. Staða félagsins á þeim tíma var um margt ögrandi, starfsemi í nokkrum löndum, undir mörgum aðskildum vörumerkjum og fjárhagsstaða veikburða. Til að bregðast við þessu var mörkuð ný stefna sem hafði það að markmiði að rétta af rekstur félagsins, styrkja efnahag þess og gera það samkeppnishæfara á upplýsingatæknimarkaði til framtíðar.

Ívar Kristjánsson

Ívar Kristjánsson,
Stjórnarformaður

Slík stefnumörkun snýr að mörgum þáttum, m.a. áherslum í lausnaframboði og markaðssókn, skipulagi, mannauði og fjárhagslegri stöðu. Í forgrunni þessarar vinnu hefur verið sú sýn að hlutverk okkar er að styðja viðskiptavini í að gera betur, nýta stafrænar leiðir og upplýsingatækni til að auka hagkvæmni, samkeppnishæfni og bæta þjónustuupplifun viðskiptavina sinna. Með öðrum orðum, þá mælum við okkar árangur í velgengni viðskiptavina.

Undanfarin ár hefur þessari stefnumörkun verið fylgt eftir með markvissum hætti og það er afar ánægjulegt að nú í upphafi árs 2019 sjáum við að verulegur árangur hefur náðst og staða Origo hefur aldrei verið sterkari. Það á við hvort sem horft er til fjárhags félagsins, vörumerkis, markaðssetningar, mannauðs eða lausnaframboðs. Framtíðarhorfur eru því vænlegar og byggja á áframhaldandi verðmætasköpun fyrir hluthafa og aðra hagsmunaaðila á grunni stöðugs rekstrar og auknu virði eigna.

„Það er afar ánægjulegt að nú í upphafi árs 2019 sjáum við að verulegur árangur hefur náðst og staða Origo hefur aldrei verið sterkari.“

Sameining og nýtt vörumerki skila ávinningi

Árið 2018 hófst með formlegri sameiningu Nýherja, Applicon og TM Software undir nýju vörumerki, Origo. Segja má að sameining félaganna hafa verið lengi í undirbúningi, m.a. með því að undanfarin ár höfum við lagt aukna áherslu á samstarf á milli félaga samstæðunnar um lausnaþróun og þjónustu við viðskiptavini.

Markmið með sameiningunni voru m.a. að tengja starfsemi samstæðunnar betur saman og auðvelda fyrirtækinu að bjóða upp á flóknari og umfangsmeiri lausnir sem viðskiptavinir kalla eftir í auknum mæli. Einnig var það markmið að einfalda fyrirtækið, auka hagkvæmni m.a. með því að draga úr tvíverknaði og gera viðskiptavinum kleift að nálgast alla upplýsingatækniþjónustu á einum stað. Að lokum vildum við skerpa á markaðssetningu okkar og gera hana skýrari og skilvirkari. Þó svo að með breytingum af þessu tagi sé tjaldað til lengri tíma en árs, þá sjáum við strax jákvæða þróun sem er afrakstur sameiningar og nýs vörumerkis.

„Þó svo að með breytingum af þessu tagi sé tjaldað til lengri tíma en árs, þá sjáum við strax jákvæða þróun sem er afrakstur sameiningar og nýs vörumerkis.“

Kynning á nýju nafni og endurmörkun Origo hefur gengið vonum framar. Eðli málsins samkvæmt er þessi vinna rétt að byrja, en undir nýju nafni hefur Origo nú þegar náð sterkri stöðu sem leiðandi þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni og er nú í fyrsta sinn efst í huga fólks þegar kemur að fyrirtækjum í upplýsingatækni (skv. mælingum Gallup). Náum við nú til breiðari aldurshóps en áður, ekki síst til yngri markhópa, sem endurspeglar vel þá flóru viðskiptavina sem skipta við Origo nú og á næstu árum.

Rekstrarbati og áfangi í sölu á Tempo

Við höfum jafnt og þétt náð fram auknu hagræði í rekstri og finnum hvernig viðskiptavinir taka vel á móti því breiða lausnaframboði sem nú er kynnt af einu fyrirtæki, ekki þremur. Eftir slaka byrjun á fyrsta ársfjórðungi hefur verið stígandi í rekstri og voru síðustu tveir fjórðungar ársins þeir bestu í sögu félagsins þegar horft er til rekstrarniðurstöðu. Afkoma af rekstri fyrir árið í heild var vel viðunandi, 1,1 milljarður króna og hefur ekki áður verið betri sem hlutfall af veltu.

Í nóvember lauk svo söluferli á hlut í Tempo þegar Diversis Capital keypti 55% hlut í félaginu og tók að sér það verkefni að leiða félagið til frekari vaxtar og verðmætasköpunar. Viðskiptin eru sérstaklega ánægjuleg viðurkenning á frábæru starfi starfsfólks Tempo og Origo síðustu ár. Um leið staðfesta þau áþreifanlega möguleika til verðmætasköpunar á grunni íslensks hugvits, en salan á Tempo telst þriðju verðmætustu viðskiptin í sögu íslensk viðskiptalífs þegar kemur að hugbúnaðartengdri starfsemi. Það er mat okkar að eitt mikilvægasta hagsmunamál hluthafa Origo sé að félagið haldi áfram verulegum eignarhlut í Tempo, enda eru vaxtarmöguleikar miklir og með hliðsjón af því þá er verðmæti félagsins líklega síst ofmetið.

„Það er mat okkar að eitt mikilvægasta hagsmunamál hluthafa Origo sé að félagið haldi áfram verulegum eignarhlut í Tempo“

Áhrif af sölu á Tempo á afkomu Origo námu um 5 milljörðum króna. Heildarhagnaður Origo á síðasta ári nam því um 5,4 milljörðum króna, sá hæsti í sögu félagsins. Eftir góðan rekstur á árinu og sölu á hlut í Tempo er Origo í mjög sterkri fjárhagslegri stöðu, með ríflega 8 milljarða eigið fé, 66% eiginfjárhlutfall og handbært fé upp á 3,2 milljarða.

„Eftir góðan rekstur á árinu og sölu á hlut í Tempo er Origo í mjög sterkri fjárhagslegri stöðu.“

Vægi upplýsingtækni aldrei meira

Verkefni stjórnenda í atvinnurekstri er stöðugar endurbætur, en í því felst að ávallt þarf að hagræða í viðskiptaferlum, einfalda, auka hraða og sjálfvirkni. Þetta verður ekki gert svo neinu nemi án stuðnings upplýsingatækni, sem er þannig mikilvægasti áhrifaþáttur á samkeppnisforskot fyrirtækja og stofnana. Við sjáum þetta glögglega í stefnulýsingum þar sem fyrirtæki í öllum atvinnugreinum vísa til upplýsingatækni eða stafrænna áherslna sem grunnþáttar í sinni starfsemi. Með öðrum orðum, þá byggja öll fyrirtæki tilveru sína með einum eða öðrum hætti á upplýsingatækni, sem setur fyrirtæki eins og Origo í lykilstöðu.

Rekstrarlegum ávinningi af upplýsingatækni er að hluta til hægt að ná með öflugum búnaði og áreiðanlegum rekstri tækniinnviða. Þar býr Origo að sögulegum styrk, enda höfum við útvegað íslensku atvinnulífi gæða tölvubúnað og rekstrarþjónustu um langt árabil. Með sameiningu Nýherja við dótturfélögin TM Software og Applicon höfum við svo sérstaklega styrkt framboð okkar á hugbúnaðarlausnum og viðskiptakerfum fyrir stjórnendur, stuðning við hugbúnaðarþróun, ráðgjöf og þjónustu. Þetta hefur verið gert með það að markmiði að styðja viðskiptavini okkar í að breyta og einfalda hjá sér viðskiptaferla sem og nýta sjálfvirkni í auknum mæli. Lausnaframboð okkar nú endurspeglar þá viðamiklu flóru verkfæra sem atvinnurekstur kallar eftir í dag og sameinuð undir einu nafni teljum við að Origo eigi erindi til íslensks atvinnulífs sem aldrei fyrr, bæði núverandi og framtíðar viðskiptavina.

„Lausnaframboð okkar nú endurspeglar þá viðamiklu flóru verkfæra sem atvinnurekstur kallar eftir í dag og sameinuð undir einu nafni teljum við að Origo eigi erindi til íslensks atvinnulífs sem aldrei fyrr.“

Fjárfesting í þróun og framtíðartekjum

Á undanförnum árum höfum við nýtt sífellt sterkari stöðu Origo til fjárfestinga í þróun eigin lausna, samstarfi og kaupum á rekstrareiningum sem falla að þjónustuframboði okkar og þörfum viðskiptavina. Þar má nefna Kjarna, sem er launa- og mannauðskerfi, gæðastýringarlausnina CCQ, bílaleigukerfið Caren, Timian sem er rafrænt innkaupakerfi, auk kerfa fyrir heilbrigðisþjónustu, Sögu, Heklu, Medicor og Heilsuveru. Að auki höfum við þróað viðbætur við SAP og Dynamics NAV og styrkt þannig stöðu okkar á markaði viðskiptalausna og lausna fyrir fjármálafyrirtæki. Að sama skapi höfum við í auknum mæli leitast við að bjóða viðskiptavinum aðgang að þjónustum í áskrift, gjarnan sem skýjalausnir, enda er nýting viðskiptavina á upplýsingatækni ört að færast úr einskiptis fjárfestingum á nokkurra ára fresti yfir í að verða hluti af rekstri. Við sjáum svo afrakstur þessarar vinnu í breyttri samsetningu tekna okkar, þar sem tekjur vegna eigin hugbúnaðarlausna Origo, áskriftar og ráðgjafar hafa aukist umtalsvert á milli ára. Við væntum þess að framhald verði á þeirri þróun á næstu árum.

„Við sjáum svo afrakstur þessarar vinnu í breyttri samsetningu tekna okkar, þar sem tekjur vegna eigin hugbúnaðarlausna Origo, áskriftar og ráðgjafar hafa aukist umtalsvert á milli ára.“

Origo mun áfram leita tækifæra til að auka við og efla lausna- og þjónustuframboð. Þar höfum við sérstaklega litið til þeirra möguleika sem felast í einföldun og sjálfvirknivæðingu viðskiptaferla, greiningar á gögnum til ákvörðunartöku og stýringar upplýsingaöryggis sem er að verða æ mikilvægari þáttur í upplýsingatæknivæddu atvinnulífi hérlendis og erlendis. Sameinað Origo hefur aukið möguleika okkar á að sjá viðskiptavinum okkar fyrir heildstæðu lausnamengi þar sem horft er til samþættingar fjölbreyttra viðskipta- og hugbúnaðarlausna, rekstrarþjónustu og tæknibúnaðar.

„Sameinað Origo hefur aukið möguleika okkar á að sjá viðskiptavinum okkar fyrir heildstæðu lausnamengi þar sem horft er til samþættingar fjölbreyttra viðskipta- og hugbúnaðarlausna, rekstrarþjónustu og tæknibúnaðar.“

Lausnaþróun skapar virði til lengri tíma

Við ákvarðanir um fjárfestingar í lausnaþróun horfum við annars vegar til möguleika okkar á innlendum markaði og hins vegar tækifæra til að koma lausnum á framfæri við stærri hóp viðskiptavina erlendis. Þegar lausnaþróun er fyrst og fremst miðuð að íslenskum markaði þá setur það fjárfestingu eðlilega skorður vegna smærra mengis mögulegra viðskiptavina. Ef lausnir eru hins vegar þess eðlis að þær geti átt við víðar en hérlendis, fyrir stærri hóp viðskiptavina á erlendum mörkuðum, þá réttlætir það aukna fjárfestingu. Þetta á einkum við þegar um hugbúnaðarlausnir er að ræða, því þegar lausnin skapar viðskiptavinum skýran ávinning og leið á markað er greið, þá eru vaxtarmöguleikar nánast ótakmarkaðir.

„Þetta á einkum við þegar um hugbúnaðarlausnir er að ræða því þegar lausnin skapar viðskiptavinum skýran ávinning og leið á markað er greið, þá eru vaxtarmöguleikar nánast ótakmarkaðir. “

Velgengni Tempo er skýrasta dæmið okkar um árangursríkt þróunarstarf af þessu tagi, en þar sprettur þörfin fyrir verkfæri til tímaskráningar- og áætlunargerðar upp úr daglegri vinnu starfsmanna Origo (þá TM Software) fyrir íslenska viðskiptavini, sérstaklega Icelandair. Þar sem þörfin fyrir öflug verkfæri af þessu tagi var ekki bundin við Ísland og auðvelt var að koma hugbúnaðinum til stærri hóps viðskiptavina utan landsteinanna reyndist mögulegt að byggja upp það glæsilega og verðmæta fyrirtæki sem Tempo er í dag.

Sala á ríflega helmingshlut í Tempo staðfestir mikilvægi þróunar eigin lausna fyrir fyrirtæki eins og Origo og einnig hvernig þróun skapar langtíma virði fyrir hluthafa. Jafnframt gefur hún fyrirheit um hvernig nýta má reglulega starfsemi þjónustufyrirtækja sem vettvang til að þróa og prófa lausnir sem síðar er hægt að flytja út á stærri markað og byggja þannig upp verðmætari atvinnustarfsemi en mögulegt er ef eingöngu er horft til Íslands.

„Nýta má reglulega starfsemi þjónustufyrirtækja sem vettvang til að þróa og prófa lausnir sem síðar er hægt að flytja út á stærri markað og byggja þannig upp verðmætari atvinnustarfsemi en mögulegt er ef eingöngu er horft til Íslands.“

Á síðustu árum hefur uppbygging Tempo innan samstæðu Origo vakið hvað mesta athygli og er hún verðskulduð. Engu að síður er ljóst að mikil tækifæri felast í frekari þróun lausna Origo sem gengið hafa vel hérlendis en eiga erindi við stærri hóp viðskiptavina erlendis.

Það er markmið stjórnar að fjármagnsskipan félagsins sé nægilega sterk til að nýta megi tækifæri af þessum toga sem og önnur sem bjóðast á markaðnum, auk þess sem efnahagur á að veita ákveðna vörn gagnvart niðursveiflum í hagkerfi, sem gjarnan koma á nokkurra ára fresti. Að þessu gefnu er það markmið stjórnar að greiða á bilinu 20-40% hagnað hvers árs sem arð og gæta þannig að ávöxtun hagsmunaaðila hverju sinni.

Með hliðsjón af þessum markmiðum, stöðu félagsins og fyrirliggjandi fjárfestingartækifærum þá leggur stjórn þá tillögu fyrir aðalfund að greiddur verið arður að upphæð 1.000 milljónir króna, eða kr. 2,205 á hlut, fyrir árið 2018. Heimild aðalfundar til kaupa á eigin hlutum hefur jafnframt verið nýtt og hefur félagið þegar keypt 2,5% af útistandandi hlutafé sem m.a. verður nýtt til að færa niður hlutafé félagsins.

Framtíðin er Origo

Markaðsvirði Origo hefur margfaldast á fáum árum og hluthafar notið góðs af því. Sterka staða fyrirtækisins nú gefur fyrirheit um að verðmætasköpun í þágu hluthafa og viðskiptavina geti áfram verið með svipuðum hætti og undanfarin ár, byggð á þremur megin stoðum. Í fyrsta lagi gerum við ráð fyrir að rekstur verði áfram stöðugur og afkoma jákvæð. Í öðru lagi þá mun fjárfesting Origo í lausnaþróun efla rekstur og styrkja enn frekar langtíma virði eigna. Í þriðja lagi má ætla að virði verulegs eignarhlutar Origo í Tempo muni halda áfram að aukast í árangursríku samstarfi Origo og Diversis Capital.

„Sterka staða fyrirtækisins nú gefur fyrirheit um að verðmætasköpun í þágu hluthafa og viðskiptavina geti áfram verið með svipuðum hætti og undanfarin ár.“

Við erum því bjartsýn á það sem er framundan. Framtíðin liggur í upplýsingatækni og þar er Origo í lykilstöðu.

Framtíðin er Origo.

Finnur Oddsson, forstjóri
Ívar Kristjánsson, stjórnarformaður

Skipurit

Stjórnendur

finnur-oddson.jpg

Finnur Oddsson

Finnur Oddsson er forstjóri félagsins. Hann tók við starfi aðstoðarforstjóra Nýherja í nóvember 2012 og við starfi forstjóra ágúst 2013.

Finnur var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs á árunum 2007-2012. Áður starfaði hann um árabil sem lektor við Háskólann í Reykjavík og stýrði þar meðal annars uppbyggingu á MBA námi HR og Stjórnendaskóla HR. Þar á undan starfaði Finnur við ráðgjafastörf hjá fyrirtækinu Aubrey Daniels International í Bandaríkjunum. Hann sat í háskólaráði Háskólans í Reykjavík frá 2009 til 2017 og var formaður ráðsins til ársins til 2014. Finnur situr framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs Íslands og stjórnum Orf Genetics og Distica.

Finnur er með BA próf í sálfræði frá Háskóla Íslands, M.A.- og Ph.D.-gráðu í sömu grein frá West Virginia University í Bandaríkjunum og auk þess AMP í viðskiptafræði frá IESE á Spáni.

drofn-gudmundsdottir.jpg

Dröfn Guðmundsdóttir

Dröfn Guðmundsdóttir er mannauðsstjóri félagsins, en hún hóf störf hjá Nýherja í febrúar 2013.

Dröfn hefur mikla reynslu á vettvangi mannauðsmála. Hún starfaði sem fræðslustjóri hjá Leikskólum Reykjavíkur og síðan sem mannauðsráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar eftir sameiningu leik- og grunnskólamála frá 2003-2007, sem mannauðsráðgjafi hjá Straumi fjárfestingabanka frá 2007-2009, fræðslustjóri Arion banka frá 2009-2011 og starfaði sem mannauðsstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu 2012-2013.

Dröfn lauk B.A.-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands og framhaldsnámi í sálfræði með áherslu á vinnu- og skipulagssálfræði frá Háskólanum í Giessen í Þýskalandi.

emil-g-einarsson.jpg

Emil G. Einarsson

Emil G. Einarsson er framkvæmdastjóri Notendalausna.

Emil starfaði frá 1985 til 1992 sem kerfisfræðingur, m.a. við innleiðingu og hönnun nýrrar gjaldkeralausnar fyrir banka/sparisjóði á Íslandi og síðan sem söluráðgjafi hjá IBM á Íslandi fyrir miðlungs- og stærri móðurtölvur.

Við stofnun Nýherja árið 1992 var Emil söluráðgjafi og hópstjóri til 1995 en frá þeim tíma var hann framkvæmdastjóri við sölu á IBM tölvubúnaði eða fram til febrúar 2005. Hann var framkvæmdastjóri Sölusviðs frá 2005-2011, framkvæmdastjóri Vörusviðs 2011-2014 og framkvæmdastjóri Viðskipta- og þjónustustjórnunar til ársins 2017.

Emil lauk viðskiptafræðiprófi af þjóðhagskjarna (Cand Oecon) árið 1982 og MBA prófi frá George Washington University 1984.

gunnar-mar-petersen.jpg

Gunnar Petersen

Gunnar Petersen er framkvæmdastjóri Fjármálasviðs.

Gunnar var fjármálastjóri Iceland Express hf. 2011-2012 og fjármálastjóri Landic Property hf. frá 2006 til 2010. Áður hafði Gunnar starfað sem viðskiptastjóri og sérfræðingur hjá HSH Nordbank í Kaupmannahöfn, Verðbréfastofunni hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf.

Gunnar er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, M.Sc.-gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og löggiltur verðbréfamiðlari.

hakon-sigurhansson.jpg

Hákon Sigurhansson

Hákon Sigurhansson er framkvæmdastjóri Hugbúnaðarlausna. Hann hefur starfað hjá félaginu frá byrjun árs 2008, fyrst sem framkvæmdastjóri EMR heilbrigðislausna og síðar sem forstöðumaður Heilbrigðislausnasviðs TM Software.

Áður starfaði Hákon meðal annars sem sjálfstæður ráðgjafi, stýrði sölu- og vörustjórnunarsviði og síðar þróunarsviði Trackwell Software og var yfirmaður upplýsingatæknimála dómsmálaráðuneytisins.

Hákon er með MBA-próf frá ESCP viðskiptaháskólanum í París og MSc-gráðu í rafeindaverkfræði frá Háskólanum í Álaborg.

ingimar-g-bjarnason.jpg

Ingimar G. Bjarnason

Ingimar G. Bjarnason er framkvæmdastjóri Viðskiptalausna. Áður var Ingimar framkvæmdastjóri Applicon á Íslandi frá 2008. Ingimar hóf störf á hugbúnaðarsviði Nýherja hf. í febrúarmánuði 1998 og starfaði þar og síðan hjá Applicon ehf. fram til ágústmánaðar 2006. Þá tók Ingimar við sem framkvæmdastjóri Applicon Solutions Ltd. í Bretlandi.

Ingimar lauk prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og síðan MBA-prófi frá IESE Viðskipta-háskólanum í Barcelóna 2003.

orn.jpg

Örn Þór Alfreðsson

Örn Þór Alfreðsson er framkvæmdastjóri Þjónustulausna

Örn er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er með víðtæka reynslu af stjórnun og rekstri í upplýsingatækni. Hann starfaði lengi sem framkvæmdastjóri hjá EJS og síðar hjá Advania þar sem hann var ábyrgur fyrir sölu og samræmingu markaðsmála fyrirtækisins.

Nú síðast starfaði Örn Þór sem framkvæmdastjóri Glerverksmiðjunnar Samverk. Örn situr einnig í stjórn rekstrarfélagsins Virðingar.

Framkvæmdastjóri dótturfélags

tomas-wikstrom.jpg

Tomas Wikström

Tomas Wikström er framkvæmdastjóri Applicon í Svíþjóð frá 2012. Hann gekk til liðs við félagið árið 2000. Hann hefur gegnt ýmsum störfum hjá félaginu á liðnum árum, þar á meðal sem fjármálastjóri þess. Þá hefur hann reynslu sem forritari og starfað við verkefnastýringu í fjármálageiranum.

Tomas er með MSc-gráðu í eðlisverkfræði frá háskólanum í Uppsölum.

Logo Origo

Besta afkoma í sögu félagsins

heildarhagnadur.png

Afkoma Origo á árinu 2018 er sú besta í sögu félagsins og forvera þess. Heildarhagnaður félagsins jókst mikið og var 5.420 m.kr. samanborið við 433 m.kr. á árinu 2017. EBITDA nam 1.128 m.kr. (7,2%) á árinu 2018, en var 928 m.kr. (6,2%) árið 2017. EBITDA félagsins jókst eftir því sem leið á árið og nam 423 m.kr. (9,5%) á fjórða ársfjórðungi og hefur aldrei verið meiri í sögu félagsins.

Samruni þriggja félaga

Árið 2018 markar ákveðin þáttaskil í sögu Origo og forvera félagsins. Origo varð til í upphafi ársins með samruna þriggja félaga og hefur sameiningin og endurmörkun vörumerkisins nú þegar skilað sér í auknum ávinningi fyrir viðskiptavini og einnig stuðlað að hagkvæmni og betri afkomu Origo. Starfsemi Origo hefur þróast töluvert á þessu eina ári.

origo.png

origo_small2.png

Auk þess sem sala á nauðsynlegum tölvubúnaði til atvinnurekstrar var umtalsverð, efldi Origo lausnaframboð sitt, sérstaklega á sviði hugbúnaðar- og viðskiptalausna, bæði með þróun eigin lausna og eins með kaupum á fyrirtækjum og rekstrareiningum. Tekjusamsetning félagsins hefur breyst samhliða aukinni áherslu á sölu þjónustu í áskrift, ráðgjöf og sölu á ýmsum hugbúnaðar- og viðskiptalausnum, bæði eigin lausnum og þeim sem við erum með í endursölu. Þessar breytingar hafa skilað okkur bæði breiðara lausnaframboði og bættri afkomu.

„Tekjusamsetning félagsins hefur breyst samhliða aukinni áherslu á sölu þjónustu í áskrift, ráðgjöf og sölu á ýmsum hugbúnaðar- og viðskiptalausnum“

Árangursrík endurmörkun

origo_sameining.png

Endurmörkun á Origo hefur tekist mjög vel og hefur félagið nú þegar náð sterkri stöðu sem leiðandi þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni bæði meðal fyrirtækja og einstaklinga. Við finnum fyrir miklum áhuga á félaginu á mörgum sviðum og er greinilegt að ítarleg undirbúningsvinna með ráðgjöfum og starfsfólki hefur skilað sér í afar sterku vörumerki og og hárri vitund á eðli starfseminnar. Origo er meðal annars efst í huga fólks þegar kemur að vali á upplýsingatæknifyrirtæki, samkvæmt mælingu Gallup síðla árs 2018.

Félagið er með yfirburðastöðu í flestum aldursflokkum, þar á meðal í aldursflokkunum 18-24 ára og 35-44 ára. Að auki þekkir 91% landsmanna vörumerkið Origo, samkvæmt nýlegri rannsókn hjá Gallup, sem þykir góður árangur á tæplega 12 mánuðum. Í vörumerkjavitund er Origo sterkast í aldurshópnum 18-49 ára. Árangurinn er í takt við tón vörumerkisins Origo, sem er léttur og hress en endurspeglar um leið auðmýkt og hjálpsemi. Þessar niðurstöður gefa okkur byr undir báða vængi og er ljóst að þetta er verulega verðmætt fyrir félagið á næstu árum.

„Endurmörkun á Origo hefur tekist mjög vel og hefur félagið nú þegar náð sterkri stöðu sem leiðandi þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni bæði meðal fyrirtækja og einstaklinga.“

Origo selur helminghlut í Tempo

sala_tempo.png

Sala Origo á ríflega helmingshlut í Tempo seint í nóvember 2018 var mikilvægt skref fyrir bæði Origo og starfsemi Tempo. Eftir söluna er fjárhagur Origo mjög sterkur og félagið á þeim stað að geta stutt bæði við innri og ytri vöxt en jafnframt staðið af sér erfiðar ytri aðstæður ef svo ber undir. Í sölunni á Tempo felst viðurkenning á frábæru starfi starfsfólks Tempo og Origo síðustu ár. Um leið eru verðmæti íslensks hugvits staðfest áþreifanlega, en síðustu misseri hefur slíkt þróunarstarf fengið aukna athygli og stuðning stjórnvalda, sem er vel.

Með stuðningi Diversis og Origo gerum við ráð fyrir að nú fari í hönd nýr kafli þróunar og tekjuvaxtar hjá Tempo og að virði félagsins geti aukist verulega á næstu misserum. Við höfum því lagt sérstaka áherslu á að Origo haldi áfram verulegum eignarhlut í félaginu og teljum það reyndar eitt af mikilvægari hagsmunamálum hluthafa Origo.

„Í sölunni á Tempo felst viðurkenning á frábæru starfi starfsfólks Tempo og Origo síðustu ár.“

Heildartekjur Hugbúnaðarlausna námu 2.129 m.kr. og jukust þær um 7,7% á milli ára. Heildarafkoman er góð. Á fjórða ársfjórðung var áfram góð eftirspurn eftir þjónustu hugbúnaðarsérfræðinga og ráðgjafa. Góð eftirspurn var eftir öryggislausnum og tengdri ráðgjöf auk þess sem sala á eigin lausnum félagsins og hugbúnaði frá samstarfsaðilum var ágæt.

heildartekjur_hugbunadarlausna.png

cover.png

Mikil eftirspurn eftir öryggislausnum

Á fjórða ársfjórðungi var kynnt ný lausn fyrir ferðaþjónustuna, Cover, sem er hótelbókunarkerfi í skýinu. Lausninni hefur verið vel tekið og stefnt er að frekari kynningu hennar á fyrsta ársfjórðungi 2019.

Verkefnastaðan er góð og rekstrahorfur ágætar.

„Heildartekjur Hugbúnaðarlausna námu 2.129 m.kr. og jukust þær um 7,7% á milli ára.“

Aukið lausnaframboð viðskiptalausna

voxtur_askriftartekna.png

Tekjur Viðskiptalausna jukust um 52% á árinu 2018 miðað við fyrra ár og námu alls 1.494 m.kr. Ástæður tekjuvaxtar hjá Viðskiptalausnum eru nokkrar. Þar má nefna aukið lausnaframboð með tilkomu Dynamics NAV, Timian innkaupakerfis og verkefna tengdum vefverslunum. Umfangsmikil erlend verkefni skiluðu svo auknum tekjum með veikingu krónunnar. Þá var unnið að stórri innleiðingu á SAP S/4HANA og fleiri verkefnum í bankalausnum fyrir nokkrar fjármálastofnanir.

Góður vöxtur var í áskriftartekjum af eigin hugbúnaði Origo. Eftirspurn eftir Kjarna, mannauðs- og launalausn var einnig góð. Sjö nýir viðskiptavinir bættust í Kjarna-hópinn á fjórðungnum, sem styrkir enn stöðu Origo sem leiðandi í lausnaframboði á sviði mannauðs- og launakerfa.

timian.png

alma.png

Unnið er að innleiðingu netbanka og annarra lausna fyrir nokkur fjármálafyrirtæki, sem hefur verið vaxtarbroddur í starfsemi Viðskiptalausna. Áfram var unnið að nýsköpun og vöruþróun á árinu í fjölbreyttu lausnamengi Origo, en afkoma Viðskiptalausna litast af gjaldfærðum kostnaði við fjárfestingu í lausnum, svipað og var árið 2017.

Til að auka enn frekar breidd í framboði Viðskiptalausna keypti Origo á fjórða ársfjórðungi 60% hlut í Sendill Unimaze ehf., sem sérhæfir sig rafrænum viðskiptum, svo sem miðlun rafrænna reikninga.

Töluverð vinna var sett í þróun nýrra viðskiptalausna á sviðinu og jafnframt er unnið að áhugaverðum sölutækifærum og því útlit fyrir áframhaldandi sterkan vöxt og bætta afkomu.

Verkefnastaðan er góð og rekstrahorfur ágætar.

laun.png

lyfsedlar.png

„Tekjur Viðskiptalausna jukust um 52% á árinu 2018 miðað við fyrra ár og námu alls 1.494 mkr.“

Gagnaský Origo tekið í gagnið

Heildartekjur Rekstrarþjónustu og innviða námu 4.431 m.kr. og drógust saman um 3% á milli ára. Þar vegur þyngst minni sala á miðlægum búnaði, en á móti jukust þjónustutekjur.

Minni vörusala á árinu vó þyngst á fyrri helmingi ársins, en góður stígandi var í henni þegar líða tók á árið og jókst sala á miðlægum búnaði á seinni helming ársins samanborið við sama tíma árið 2017.

ut_rekstrarthjonusta.png

serfraedingar.png

Fjöldi tíma sérfræðinga í útseld verkefni jókst um 40% á milli ára og verkefnastaða í upphafi árs er áfram mjög góð.

Nýrri þjónustu var ýtt úr vör undir lok árs þegar Gagnaský Origo var opnað og eru fyrstu viðskiptavinir farnir að nýta sér þjónustuna, sem telst nýjung á markaði og sérlega hagkvæm. Fyrirhugað er að geymslurýmd Gagnaskýs Origo vaxi hratt á næstu misserum, eftir þörfum viðskiptavina.

Verkefnastaðan er góð og rekstrahorfur ágætar.

„Nýrri þjónustu var ýtt úr vör undir lok árs þegar Gagnaský Origo var opnað“

Stafrænar áherslur og netverslun í sölu á tölvubúnaði

heildartekjur_notendalausna.png

Heildartekjur Notendalausna námu 4.630 m.kr., sem er um 5,4% vöxtur milli ára. Tekjuaukningin stafar meðal annars af stafrænum áherslum og sjálfvirknivæðingu í verslunarhlutanum. Aukin áhersla hefur verið lögð á netverslun Origo, sem hefur margfaldað tekjur sínar á einu ári, en þar geta viðskiptavinir afgreitt sig sjálfir hratt og örugglega. Tekjuaukningu má einnig rekja til vaxandi eftirspurnar eftir lausnum frá Sony, Bose og Lenovo.

Mikil umsvif voru einnig í hljóð- og myndlausnum, einkum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki.

„Tekjuaukningin stafar meðal annars af stafrænum áherslum og sjálfvirknivæðingu í verslunarhlutanum.“

vorunumer.png

Notendalausnir hyggjast halda áfram stafrænni vegferð sinni og auka enn frekar samræmingu á sölugáttum og áherslu á sjálfsafgreiðslulausnir.

Verkefnastaða er góð og útlit fyrir tekjuvöxt og bætta afkomu.

Logo Applicon

Góð eftirspurn eftir bankalausnum í Svíþjóð

Aukin umsvif voru hjá Applicon í Svíþjóð á árinu, en fyrirtækið er í eigu Origo og leggur áherslu á viðskiptalausnir fyrir banka og fjármálafyrirtæki þar í landi. Heildartekjur ársins námu SEK 89 m.kr. og stóðu þær í stað frá fyrra ári.

heildartekjur.png

Góð eftirspurn var eftir þjónustu ráðgjafa Applicon á fjórða ársfjórðungi og yfir árið og hefur ráðgjöfum verið fjölgað til að anna betur auknum umsvifum. Stærstu verkefni Applicon tengjast innleiðingu og viðhaldi á kjarnabankalausnum fyrir SBAB bankann og Landshypotek Bank og er fyrirtækið það eina á þessu sviði í Svíþjóð sem getur státað af tveimur af 10 stærstu bönkum landsins í viðskiptavinahópi sínum. Samstarfið við fyrrnefnd fyrirtæki hefur reynst farsælt en þau völdu Applicon til þess að vinna að mikilvægum viðbótarverkefnum sem tengjast kjarnastarfsemi þeirra.

„Stærstu verkefni Applicon tengjast innleiðingu og viðhaldi á kjarnabankalausnum fyrir SBAB bankann og Landshypotek Bank“

Afkoma ársins var nokkuð lægri en árið á undan og heldur undir væntingum. Það skýrist m.a. af gjaldfærðri fjárfestingu í vöruþróun og auknum rekstrarkostnaði. Gert er ráð fyrir að tekjur verði með sambærilegum hætti á árinu 2019 og þær voru á árinu 2018. Áfram er búist við mikilli eftirspurn eftir þjónustu ráðgjafa og að aukin reynsla nýrra ráðgjafa muni skila bættri afkomu á nýju ári.

Mannauður

staff.png

Hjá Origo starfar öflugur hópur fólks sem nýtir hugvit sitt til að efla árangur, hagsæld og öryggi viðskiptavina. Markmið okkar í mannauðsmálum er að verða eftirsóttasti vinnustaðurinn og laða þannig að fyrirtækinu hæfasta starfsfólkið til frambúðar. Til að ná því markmiði höfum við sett okkur metnaðarfulla mannauðsstefnu sem byggir á gildunum okkar þremur, samsterk, þjónustuframsýn og fagdjörf.

Stöðugildi og kynjahlutfall

stodugildi.png

Nokkur fjölgun var á starfsfólki á árinu hjá Origo. Í upphafi árs var fjöldi stöðugilda Origo 429 en í lok árs voru stöðugildin 443. Stöðugildum fjölgaði því um 14 á árinu. Fjöldi starfsfólks hjá Applicon í Svíþjóð voru 52 í lok árs. Samtals fjöldi stöðugilda hjá Origo og Applicon í Svíþjóð eru því 495.

Kynjahlutfall hjá Origo skiptist þannig að 24% starfsmanna eru konur og 76% karlar og er þetta svipað hlutfall og á undangengnu ári. Það hefur loðað við upplýsingatæknigeirann að karlar hafa verið í meirihluta, en samstæðan hefur einsett sér með skýrri stefnu og framkvæmdaáætlun jafnréttismála að vinna áfram að því langtímamarkmiði að því að fjölga konum innan félagsins.

Jafnlaunavottun

Origo hlaut í lok síðasta árs vottun á jafnlaunakerfi fyrirtækisins. Innleiðing jafnlaunakerfisins var unnin í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012, en kerfinu er ætlað tryggja að allar ákvarðanir varðandi laun séu teknar á sama hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðunum feli ekki í sér kynjamismunun. Innleiðing jafnlaunakerfis er hluti af jafnréttisáætlun Origo.

Jafnlaunakerfið var vottað af BSI á Íslandi og hefur fyrirtækið fengið afhent skírteini því til staðfestingar. Þá hefur Origo einnig fengið heimild Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerki Velferðaráðuneytisins.

Jafnlaunakerfi Origo var unnið af mannauðsteyminu ásamt aðkomu ráðgjafa og nokkurra annarra sérfræðinga innan Origo á árinu 2018 og fór úttekt á því fram í desember síðastliðnum.

Kynning á upplýsingatæknistörfum fyrir ungt fólk

Origo hefur lagt sig fram um að kynna störf í upplýsingatækni fyrir ungu fólki á ýmsum skólastigum, til að vekja áhuga á þeim fjölbreyttu og skapandi störfum sem þar er að finna. Fyrir háskólanemendur höfum við haldið fyrirtækjakynningar og vísindaferðir og tekið þátt í framadögum háskólanna. Á vettvangi grunnskóla höfum við tekið þátt í GERT samstarfsverkefninu, haldið kynningar fyrir skólahópa og tekið þátt í verkefninu Stelpur og tækni. Við höfum einnig tekið þátt í starfamessum á vegum framhaldsskóla og farið í heimsóknir.

Hreyfing, heilsa og vistvænar samgöngur

Starfsmenn Origo samstæðunnar eru duglegir þegar kemur að hreyfingu, vistvænum samgöngum og keppnum sem tengjast hreyfingu eins og undanfarin ár. Árið 2018 byrjaði með heilsuátaki þar sem starfsmenn tóku þátt í heilsutengdum keppnum og sóttu fyrirlestra um málefni tengda andlegri og líkamlegri heilsu

Fjöldi starfsmanna tók sem fyrr þátt í Hjólað í vinnuna og Origo átti 10 manna lið í WOW Cyclothon keppninni líkt og fyrr og náði liðið glæsilegum árangri.

Origo styrkir starfsmenn sína líka til þátttöku í Reykjavíkurmaraþoninu og tóku um 60 starfsmenn þátt í hlaupinu í ár og hlupu til styrktar góðu málefni. Origo lagði til 500 kr á hvern km sem fólk hljóp og gátu starfsmenn því lagt af mörkum til mismunandi góðgerðarmála.

Einnig tók fjöldi starfsmanna þátt í skemmtilegasta hlaupi ársins, Gung-Ho!, en Origo var meðal styrktaraðila í því skemmtilega þrautarhlaupi.

Starfsmenn Origo og dótturfélaga eru einnig duglegir að stunda vistvænar samgöngur. Á árinu 2018 voru um 118 starfsmenn með virka samgöngusamninga eða um fjórðungur starfsmanna.

Samfélagsábyrgð

Stefna Origo um samfélagsábyrgð leggur áherslu á tengsl við ungt fólk, menntun og nýsköpun, sem hafa verið grunnþættir í þeim verkefnum sem félagið hefur styrkt um nokkurt skeið. Samfélagsstefna Origo byggir áfram á þessum áherslum en er einnig nánar útfærð til að taka til fjögurra meginstoða, sem eru: Mannauður, umhverfi, góðir stjórnarhættir og styrkir við góð málefni. Fjallað hefur verið um mannauð og jafnrétti hér ofar.

Umhverfismál

Origo hefur sett sér umhverfisstefnu sem tekur til allrar starfsemi Origo auk allra starfsmanna fyrirtækisins. Starfsmenn og stjórnendur Origo skulu kynna sér efni stefnunnar og framfylgja henni, auk þess að leita leiða til umbóta í umhverfissmálum. Framfylgja skal öllum lagakröfum á sviði umhverfismála í starfsemi félagsins. Með umhverfisstefnunni skuldbindur félagið sig til að vinna markvisst að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar.

Origo er eitt af þeim fyrirtækjum á Íslandi sem hefur undirritað yfirlýsingu um loftslagsmál og þannig skuldbundið sig til að vinna að aðgerðum sem draga úr losun gróðurhúslofttegunda og minnka myndun úrgangs. Notast er við hugbúnað til að mæla vistspor fyrirtækisins og setja markmið í umhverfismálum fyrir fyrirtækið. Origo hvetur starfsmenn til vistvænna ferðmáta, m.a. með því að veita þeim samgöngustyrki sem stunda vistvænar samgöngur og hefur félagið sett sér sérstaka samgöngustefnu í þessum efnum. Allt sorp sem fellur til, bæði á skrifstofu félagsins, verslun, verkstæði og lager, er flokkað í viðeigandi flokkunartunnur. Félagið hefur tekið stór skref í útrýmingu einnota umbúða sem voru áður í tíðri notkun. Félagið notar eigin lausn, RentaPrent, þar sem lögð er áhersla á að draga úr sóun á pappír.

Samfélagsleg mál og styrkir

Samfélagsleg ábyrgð skiptir Origo miklu máli og hefur félagið unnið að því að auka samfélagslega ábyrgð sína með margvíslegum hætti. Samfélagsstefna félagsins hefur verið römmuð inn í tengslum við ungt fólk, menntun og nýsköpun, sem hafa verið grunnþættir í þeim verkefnum sem félagið hefur styrkt um nokkurt skeið. Samfélagsstefna félagsins byggir m.a. á þessum áherslum.

Meðal verkefna sem styrkt hafa verið eru: Unglingastarf SÁÁ, Háskóli unga fólksins, Forritunarkeppni framhaldsskólanna á vegum HR, Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema í Háskóla Íslands, Forritarar framtíðarinnar, First Lego hönnunarkeppnin, Verkefni Samtaka iðnaðarins um kynningu náms í tæknigreinum háskóla fyrir framhaldsskólanemum.

Spilling, mútur og mannréttindi

Starfsfólk Origo hefur sett sér siðareglur sem varða almenna viðskiptahætti og viðskiptasiðferði. Reglurnar vísa til væntinga um vinnulag gagnvart viðskiptavinum, samstarfsfólki, eigendum, samkeppnisaðilum og samfélagi. Í reglunum kemur fram að heiðarleiki og ótvíræð samskipti séu lykilatriði góðs viðskiptasiðferðis. Allir viðskiptaaðilar Origo eiga rétt á réttlátri og sanngjarnri meðferð í anda jafnræðisreglu. Starfsmönnum ber að gera viðvart um atvik, þar sem ætla má, að lög séu brotin. Slíkt ber að gera við yfirmann eða til yfirstjórnar fyrirtækisins beint. Starfsmenn munu á engan hátt gjalda þess í starfi séu þeir að uppfylla skyldu sína í þessu efni og er trúnaðar gætt, sé þess óskað. Starfsmaður skal ekki þiggja gjöf, þjónustu, skemmtun eða persónulegan greiða sem með réttu mætti álykta að gæti haft áhrif á viðskipti. Boð um skemmtun ætti ekki að þiggja nema boðið sé innan marka viðurkenndrar viðskiptagestrisni. Fái starfsmenn tilboð eða jafnvel hótanir í tengslum við störf sín ber viðkomandi að tilkynna það yfirmanni sínum strax.

Félagið virðir almenn mannréttindi, rétt allra til félagafrelsis og kjarasamninga. Því til stuðnings hefur félagið sett sér jafnréttisstefnu og siðareglur eins og fjallað var um hér fyrir framan. Áhersla er lögð á að verktakar og undirverktakar fari eftir gildandi lögum í landinu er varðar alla starfsmenn sína, sama hvort það eru launþegar þeirra eða eigin undirverktakar.

Góðir stjórnarhættir

Stjórn Origo hf. leitast við að viðhalda stjórnarháttum og fylgja „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“ sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq OMX Iceland og Samtök atvinnulífsins gáfu út. Stjórnin hefur sett sér ítarlegar starfsreglur þar sem valdsvið hennar er skilgreint og verksvið gagnvart forstjóra. Origo er fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum samkvæmt mati Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands, að undangenginni ítarlegri úttekt Capacent á haustmánuðum 2014.

ESG Mælingar

Í mars 2017 gáfu kauphallir Nasdaq á Norðurlöndum út leiðbeiningar fyrir fyrirtæki um birtingu upplýsinga um samfélagsábyrgð. Leiðbeiningunum er skipt upp í þrjá þætti: Umhverfismál, samfélagsleg mál og stjórnarhætti (ESG- Environmental, Social, Governance). Origo hf. birtir nú í fyrsta sinn ESG staðla fyrir sína starfsemi.

E - Environmental Útskýring
E1 Losun gróðurhúsalofttegunda 124 tCO2í Þar af voru 83,5 tCO2í í Umfangi 1, 24,3 tCO2í í Umfangi 2 og 16,3 tCO2í í Umfangi 3
E2 Kolefniskræfni
    Kolefnisvísir orku
    Kolefnisvísir starfsmanna

Kolefnisvísir orku
0,04 tCO2í/MWst
Kolefnisvísir starfsmanna
0,22 tCO2í/fj. stm.
E3 Orkunotkun 2.843.168 kWst Þar af var 1.545.584 kWst vegna heitavatns, 969.440 kWst vegna raforku og 328.144 kWst vegna jarðefnaeldsneytis
E4 Orkukræfni
    Orkukræfni flatarmáls
    Orkukræfni hvers stöðuígildis

Orkukræfni flatarmáls
435 kWst/m2
Orkukræfni hvers stöðuígildis
5.014 kWst/fj.stm.
E5 Helsti orkugjafi -
E6 Endurnýjanleg orka 88,5% Hlutfall notkunar Origo af endurnýjanlegri orku af heildarorkunotkun var 88,5%
E7 Vatnsnotkun 61.803 m3 Þar af var kalt vatn 35.155 m3 og heitt vatn 26.648 m3
E8 Losun úrgangs 89.355 kg Hlutfall flokkaðs úrgangs var 68,1% og hlutfall endurunnins úrgangs var 68,0%
E9 Umhverfisstefna Umhverfisstefna Origo
E10 Umhverfisáhrif Nei Fyrirtækið hefur ekki valdið neikvæðum umhverfisáhrifum
S - Social Útskýring
S1 Launahlutfall æðsta stjórnanda 17,5% Hlutfall á milli heildarlauna forstjóra og miðgildi grunnlauna annarra starfsmanna hjá Origo er 17,5%
S2 Launahlutfall kynja 99,6% Miðgildi launa kvenna hjá Origo er 99,6% af miðgildi launa karla
S3 Starfsmannavelta 13% Hlutfall starfsmanna sem lét af störfum árið 2018 hjá Origo
S4 Kynjahlutföll 24%/76% Hlutfall kvenna af heildarfjölda starfsmanna Origo er 24%, karlar eru 76% starfsmanna
S5 Hlutfall starfsmanna í hlutastörfum 3,6% Hlutfall starfsmanna í hlutastarfi eða tímavinnu.
S6 Jafnréttisstefna Jafnréttisstefna Origo
S7 Slysastíðni 0 Engin starfsmaður slasaðist á vinnutíma eða á leið til eða frá vinnu á árinu 2018
S8 Heilsuvernd og öryggisstefna Mannauðsstefna Origo
S9 Stefna gegn barnaþrælkun og nauðungarvinnu - Origo hefur ekki mótað sér sérstaka stefnu í þessum málum
S10 Mannréttindastefna - Origo hefur ekki mótað sér sérstaka stefnu í þessum málum
S11 Brot á mannréttindum 0 Engin brot á mannréttindum hafa verið tilkynnt
S12 Fjölbreytileiki stjórnar 40% Í stjórn Origo sitja þrír karlar og tvær konur
G - Governance Útskýring
G1 Aðgreining valds í stjórn Forstjóri situr ekki í stjórn félagsins eða gegnir formennsku í undirnefndum
G2 Gagnsæi í störfum stjórnar - Stjórn og stjórnarhættir Origo
G3 Samfélagslegt hvatkerfi Nei Stjórnarmenn fá ekki umbun byggða á ESG frammistöðu
G4 Stuðningur við samtök launafólks
G5 Sjáfbær innkaupastefna - Origo hefur ekki mótað sér sérstaka stefnu í þessum málum
G6 Siðareglur Siðareglur Origo
G7 Aðgerðir gegn spillingu og mútum - Origo hefur ekki mótað sér sérstaka stefnu í þessum málum
G8 Gagnsæi í skattamálum - Origo hefur ekki mótað sér sérstaka stefnu í þessum málum
G9 Sjáfbærniskýrsla - Origo hefur ekki mótað sér sérstaka stefnu í þessum málum
G10 Aðrar skýrslur um sjálfbærni Festa samkomulag vegna gróðurhúsaáhrifa
G11 Ytri úttektir og vottun -

Gildi ORIGO

Við erum samsterk, fagdjörf og þjónustuframsýn.

Þessi nýyrði vísa til þeirra vinnubragða, ser eru hverju framsæknu þjónustufyrirtæki mikilvæg og felast í samstarfi, fagmennsku, dirfsku og frumkvæði.

Samsterk

Við vinnum saman þvert á einingar og nýtum þannig sérþekkingu á ólíkum sviðum fyrirtækisins til að þróa snjallar lausnir fyrir viðskiptavini.

Fagdjörf

Við byggjum á traustum grunni fagmennsku og sérþekkingar en erum samt óhrædd við nýsköpun og að taka ákvarðanir af lipurð sem fela í sér breytt og bætt vinnulag, fyrir okkur sjálf og viðskiptavini.

Þjónustuframsýn

Við veitum framúrskarandi þjónustu sem er löguð að þörfum hvers viðskiptavinar, förum fram úr væntingum með frumkvæði að nýjum og hagkvæmari þjónustulausnum og tryggjum þannig langtíma viðskiptasambönd.

Stjórn og stjórnar­hættir

Stjórn

Stjórn Origo samanstendur af sex einstaklingum, en stjórnin fylgir leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, sem gefnar voru út af Viðskiptaráði Íslands, OMX Kauphöll Íslands og Samtökum atvinnulífsins.

Efri röð frá vinstri: Loftur Bjarni Gíslason, Finnur Oddsson (forstjóri) Hjalti Þórarinsson og Hildur Dungal.
Neðri röð frá vinstri: Emilía Þórðardóttir, Ívar Kristjánsson og Guðmundur Jóhann Jónsson.

Ívar Kristjánsson

Ívar Kristjánsson, formaður stjórnar tók sæti í stjórn Origo hf. (áður Nýherja hf.) í mars 2016 og varð stjórnarformaður í desember sama ár. Hann er framkvæmdastjóri 1939 Games, stjórnarformaður RVX og situr í stjórn Icelandic Gaming Industry (innan Samtaka iðnaðarins). Ívar stundaði nám í viðskiptafræði við HÍ og hefur lokið MBA gráðu frá HR. Hann er einn af stofnendum CCP hf. og starfaði þar í 17 ár og var framkvæmdastjóri CCP þegar EVE-Online kom út árið 2003, en var lengst af fjármálastjóri CCP.

Emilía Þórðardóttir

Emilía Þórðardóttir kom í stjórn Origo hf. (áður Nýherja hf.) í mars 2016. Hún er verkefnastjóri - Mgr. Project Landshúsa ehf. Hún hefur setið í stjórnum nokkurra annarra fyrirtækja.

Emilía er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, B.S. nám í viðskiptafræði - stjórnun og markaðsfræði.

Hildur Dungal

Hildur Dungal tók sæti í aðalstjórn Origo hf. (áður Nýherja hf.) í febrúar árið 2011. Hún útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hún gegndi starfi forstjóra Útlendingastofnunar, starfaði um árabil hjá dómsmálaráðuneytinu en er nú lögfræðingur yfirstjórnar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Hildur hefur setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja og er varamaður í stjórn Bankasýslunnar.

Loftur Bjarni Gíslason

Loftur Bjarni Gíslason kom inn í aðalstjórn Origo hf. (áður Nýherja hf.) í mars 2014. Hann er framkvæmdarstjóri Álfakórs ehf.

Loftur Bjarni lauk B.Sc.-námi í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri árið 2007.

Guðmundur Jóhann Jónsson

Guðmundur Jóhann Jónsson tók sæti varamanns í stjórn Origo hf. (áður Nýherja) 1999 og hefur gegnt hlutverki vara- og aðalmanns frá þeim tíma til dagsins í dag.

Guðmundur, sem er forstjóri tryggingafélagsins Varðar, útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Seattle University á árinu 1985 og lauk MBA prófi frá Edinborgarháskóla á árinu 2000. Hann hefur auk setu í stjórn Nýherja setið í stjórnum nokkurra annarra fyrirtækja. Hann situr í stjórn Viðskiptaráðs Íslands.

Hjalti þórarinsson

Hjalti Þórarinsson tók sæti varamanns í stjórn Origo hf. (áður Nýherja) í mars 2017. Hann er framkvæmdastjóri hjá Marel og leiðir 230 starfsmanna hugbúnaðardeild. Hjalti stundaði nám í rafmagns- og tölvuverkfræði í HÍ 1995-1998 og lauk MBA námi frá MIT í Bandaríkjunum. Hjalti átti þátt í stofnun hugbúnaðarhússins Dímon árið 1998. Eftir MBA námið vann Hjalti í höfuðstöðvum Microsoft í 11 ár, og leiddi þar viðskiptaþróun fyrir gervigreind.

Stjórnarhættir

Stjórn félagsins fylgir leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, sem gefnar voru út af Viðskiptaráði Íslands, OMX Kauphöll Íslands og Samtökum atvinnulífsins, nýjustu útgáfu dagsettri í júní 2015.

Markmið leiðbeininganna eru m.a. að:

  • Stuðla að góðum stjórnarháttum fyrirtækja á Íslandi.
  • Auðvelda stjórnarmönnum og stjórnendum fyrirtækja að rækja skyldur sínar og auðvelda þeim þannig að stuðla að vexti og viðgangi þeirra fyrirtækja, sem þeim er trúað fyrir að stjórna.
  • Auka traust á fyrirtækjum og atvinnurekstri almennt.
  • Efla traust milli fjárfesta og stjórnenda.
  • Auka samkeppnishæfni íslensks viðskiptalífs með því að færa stjórnarhætti íslenskra fyrirtækja í stórum dráttum til sama horfs og í nágrannalöndum okkar.
  • Auðvelda fjárfestum að gera sér grein fyrir þeim stjórnarháttum sem tíðkast hérlendis þegar þeir meta fjárfestingarkosti sína.
  • Auðvelda aðgang innlendra fyrirtækja að fjármagni hérlendis og erlendis.

Nefndir og regluvörður

  • Endurskoðunarnefnd skipa: Ívar Kristjánsson, Loftur Bjarni Gíslason og Jón Gunnsteinn Hjálmarsson.
  • Starfskjaranefnd skipa: Hildur Dungal, Emilía Þórðardóttir og Guðmundur Jóhann Jónsson.
  • Þór Konráðsson er regluvörður og Sigríður Óskarsdóttir staðgengill regluvarðar.

Samþykktir og starfsreglur

Stærstu hluthafar Origo 31.12.2018

577 hluthafar

Hluthafar Hlutir %
Vogun hf. 50.308.800 10,8%
Lífeyrissjóður verslunarmanna 46.119.303 9,9%
Birta lífeyrissjóður 45.961.188 9,9%
Kvika banki hf. 39.250.296 8,4%
The Wellington Trust Company Na 30.891.476 6,6%
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. 20.829.837 4,5%
Arion banki hf. 18.980.196 4,1%
Lífsverk lífeyrissjóður 16.057.679 3,5%
Landsbankinn hf. 12.257.801 2,6%
IS Hlutabréfasjóðurinn 12.000.937 2,6%
Júpíter - Innlend hlutabréf 11.461.632 2,5%
HEF kapital ehf 10.800.000 2,3%
The Wellington Trust Company Na 9.495.639 2,0%
Eldkór ehf. 9.344.708 2,0%
Landsbréf - Úrvalsbréf 8.635.402 1,9%
Fagfjárfestasjóðurinn IHF 8.611.797 1,9%
Stapi lífeyrissjóður 7.508.780 1,6%
Íslandsbanki hf. 5.241.767 1,1%
Hólmur ehf. 5.066.480 1,1%
GBV 17 ehf. 4.867.159 1%